Wednesday, September 12, 2007

Kórdrengurinn & Shrek

Það er deginum ljósara að það er komið haust þar sem allir fjölskyldumeðlimir eru komnir með kvef. Maður er orðin góðu vanur og tekur því ekki vel í svona vesen. Nú er bara að krossa fingur og vona að enginn verði meira en kvefaður.

Síðustu helgi rigndi eldi og brennisteini í Stokkhólmi. Á laugardaginn héldum við okkur því að mestu innandyra og merkilegt nokk gekk það bara nokkuð vel og börnin voru dugleg að leika sér saman. Á sunnudeginum var þó ekki hægt að sitja aðgerðarlaus lengur og því drifum við okkur á "Shrek den tredje". Myndin var ágæt og Ella þurfti bara einu sinni á klósettið á myndinni sem þýðir að hún er öll að koma til hvað varðar bíóferðir. Sindri Dagur hins vegar hreinlega elskar að fara í bíó og situr eins og myndastytta og horfir = það er ekkert að fara að koma upp á milli hans og myndarinnar! Myndin var í meðallagi en ungarnir voru alsæl með þetta ævintýri.

Eftir bíóið komu Júlía Jökulrós, foreldrar og bumba í heimsókn. Það var auðvitað mjög gaman enda Júlían í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni og þá sérstaklega henni Ellu. Það er skemmtilegt frá því að segja að bumban kemur ekki aftur í heimsókn til okkar en við vonum að heimasætan sem kom úr henni verði tíður gestur hér á bæ. Vona bara að Ella taki ekki aðra herferð í "Mig langar í litla systur" - and I'm not taking no for an answer! Hún var búin að sættast á að bíða í nokkur ár með þetta en sagðist samt ætla að verða eins og Mía María í Skarkalagötu.

Í dag bar til tíðinda hjá börnunum og mér. Sindri Dagur er byrjaður í kirkjukór og Ella og ég í barnatónlistarhóp á sama tíma. Það er skemmst frá því að segja að sonur minn var alsæll með að vera kórdrengur þrátt fyrir að þekkja engan í hópnum. Mikið verður gaman að fara á tónleika í vetur :-D Við Ella vorum líka í góðu stuði í okkar hóp...

No comments: