Sunday, August 05, 2007

Landafræði barnanna 101

Við snerum í gær aftur frá vikuferð til Danmerkur. Það er óneitanlega hægt að segja að ferðalög undangenginna mánaða hafa örvað tilfinningu barnanna fyrir landafræði. Ella hefur hugsað mikið út í það hvað er borg og hvað er land. Sindri Dagur er kominn aðeins lengra og skoðar landakort af mikilli alúð og finnst merkilegt hvað er langt á milli staða. Fyrir utan það vorum við ekki fyrr komin yfir til DK en hann sagði hneykslaður:

"Af hverju er svona mikið rusl á lestarteinunum?!!!"

Hann er greinilega vel upp alinn í landi ordning och reda og vildi fá skýringar á þessu sem ég hafði ekki. Hann íhugaði alvarlega að krefja einhvern Dana skýringa á þessum sóðaskap. Ekki nóg með þetta heldur fannst honum Rupert litla Murdoch strætisvagnarnir í Köben óhreinir:

"Hér þarf að þurrka af!"

En Tívolí fannst Sindra Degi best í heimi og fór í mörg tæki með pabba og Elínu Lilju (þau fengu öll turpas en ekki ég). Eftir langan dag þar hringir Bjössi frændi:

SDS (óður og upprifinn): Ég var í tívolí í dag!
Bjössi: Já..bíddu er það í Kína?
SDS (hissa): Nei Bjössi, það er í Kaupmannahöfn.
Bjössi: Jaaaá og það er í Kína!
SDS (pirraður og hugsandi ohh þú ert OF vitlaus): Nei, Kaupmannahöfn er borg í Danmörku.

Næsti áfangastaður ferðarinnar kallast Ljótland af börnunum mínum en allmennt er sá staður kallaður Jótland. Við fórum í Legoland í 4 daga með börnunum. Hefðum algerlega getað reynt að fara eitthvað fleira þarna en Legoland er svo stór garður og börnin alveg heilluð. Nánar um það síðar...

No comments: