Hér í Stokkhólmi er búið að vera vor í lofti síðustu daga. Það er hreinlega yndislegt að fara út fyrir hússins dyr. Það er barasta held ég kominn tími til að draga fram hjólið og hætta að strætóast í bili. Sindri er búinn að hjóla í vinnuna í vikunni og Sindri Dagur beið spenntur eftir að pabbi hans kæmi heim í gær til þess að hann gæti farið út með sitt hjól! Ella var hins vegar búin að halda kyrru fyrir heima frá því á sunnudag vegna kvefpestar. Í dag fékk hún hins vegar að snúa aftur til vinnu sinnar á Rövarkulan.
Það er langt síðan ég skrifaði síðast. Ég lagðist í flensu í nokkra daga sem einhvern veginn náði að draga niður orkuna í mér þannig að ég rétt lufsaðist áfram í heila viku eftir að mér batnaði. Síðan kom Bjössi bróðir í heimsókn og ég lifnaði við. En þá veiktist Ella greyið. Feðgarnir standa enn uppréttir og mér sýnist að sá styttri ætli að láta sér nægja að fá smá kvef.
Ég er búin að vera að vinna áfram logistics verkefnið mitt samhliða því sem ég þurfti að gera upp við mig hvort ég ætlaði að klára MS frá HÍ eða KTH. Ég er búin að ákveða að halda mig við HÍ og er að reyna að fastsetja lokaverkefni sem ég ætla helst að byrja á í sumar. Spennandi hlutir þar á ferð sem ég ætla ekki að skrifa meira um fyrr en allt er ákveðið.
Á laugardaginn fórum við fjölskyldan á Tekniska Museet með Bjössa. Það var ágætt en ekkert svo grípandi fannst mér. En krakkarnir skemmtu sér mjög vel á leiksvæðinu og svona bara almennt líka. Maður verður að þræða söfnin hérna jafnt og þétt.
Elín Lilja er hætt á bleyju þegar hún er innan dyra. Núna einnig í leikskólanum. Það virðist áreynslulaust fyrir hana þa. ætli við tökum ekki bleyjuna alfarið af (nema á nóttunni) um helgina. Vei :-)
Við hjónakornin fórum út að borða á laugardaginn. Við fórum á stað sem heitir Restaurangen og er rétt hjá Hötorget. Fengum 5 smárétti hvor og fannst alveg frábært. Mæli með þeim stað.
No comments:
Post a Comment