Sunday, July 20, 2008

Hvað er að ske?

Síðustu vikuna hafa börnin verið í fríi og ég hef fengið það síður en svo létta hlutverk að hafa ofan af fyrir þeim. Við komum frá Kolmården á sunnudagskvöldinu og því fengu þau að láta sér nægja ferð á leikvöllinn á mánudeginum.

Á þriðjudeginum fórum við með Árna Grími, Steinunni og Nínu í Gröna Lund. Þetta var fyrsta skiptið hennar Nínu Þorbjargar í tívolí og ekki var annað að sjá en að hún sé efnileg í slíkum ferðum! Sindri Dagur varð fyrir svolitlum vonbrigðum þar sem við komumst ekki í neinn rússíbana. Ella vildi ekki láta passa sig og pabbi var bara í vinnunni.

Á miðvikudeginum fórum við að velja skólatösku og pennaveski fyrir Sindra Dag en það varð ekkert mikið meira úr deginum en þessi bæjarferð. Fyrir valinu urðu forláta Bionicle skólataska og pennaveski. Það að drengurinn sé að byrja í skóla verður sífellt raunverulegra!

Á fimmtudeginum fórum við þrenningin í heimsókn til Steinnunnar og co. Það var mikið fjör. Svo mikið fjör að smáfólkið vildi alls ekki fara heim!

Á föstudeginum tókum við strætó á leikvöll sem er með buslupoll. Krökkunum finnst alveg frábært að busla aðeins þarna og ég get bara setið og sólað á meðan. Þarna var meðal annars stelpa sem var greinilega spennt fyrir að kynnast rauðhærðu systkinunum og var alltaf að spjalla við þau. Ella stökk upp úr og kom til mín og sagði eitthvað á íslensku við mig. Stelpan var á eftir og óskaði þess greinilega að Bellan væri að tala við sig sem var +/- endurgoldið. Loks sneri Ella sér að stelpunni og sagði: "Jag pratar med min mamma, förstår du!". Ellan er ekkert fyrir of mikla ástúð frá ókunnum börnum...



Á laugardeginum var mikið prógramm. Við tókum bát til Vaxholm og hittum þar aðra íslenska fjölskyldu og síðan lá leiðin í Vaxholm Kastell þar sem við fylgdumst með sýningu á Ronju Ræningjadóttur..í alvöru kastala! Ekki nóg með það heldur gerðist það að í einu atriðinu stökk Mattías (Ronju pabbi) til, settist við hliðina á okkur og fékk derhúfuna hans Sindra Dags lánaða til að fela sig!!! (athugið þrjú upphrópunarmerki)

No comments: