Friday, May 12, 2006

Þolendur og gerendur

Þegar ég var lítil voru til krakkar sem komu illa fram við mig. Fram á síðustu ár kallaði ég það ekki einelti en með meiri umræðu og umhugsun varð mér ljóst að það er nákvæmlega það sem það var.

Fyrsta skóladaginn minn í 6 ára bekk mætti ég í nýjum fötum sem ég var rosalega ánægð með. Ég man meira segja enn að buxurnar voru svartar og peysan svört og rauð. Ég hlakkaði mikið til. Það fyrsta sem gerðist var að mér var hrint í drullupoll rétt áður en öllum var hleypt inn í selið. Valmöguleikarnir voru tveir, að fara heim eða að fara hundblaut og skítug að hitta nýju skólafélaga mína, þe. þá sem ekki höfðu kynnt sig með þeim hætti að hrinda mér. Ég valdi síðari kostinn.

Það er margt sárt sem ég man en sennilega líka margt sem ég man ekki. Það sem ég man þó að mér fannst allra verst að draga athyglina að mér. Það var það versta sem gat gerst. Það voru því engar líkur á að ég segði frá því ef einhver kom illa fram við mig. Kennararnir voru alltaf hæstánægðir með mig enda hæglát stúlka sem hafði ekkert fyrir því að læra. Ekkert vesen. Foreldrar mínir heyrðu því ákaflega lítið af félagslegum erfiðleikum mínum og gerðu sér eiginlega varla grein fyrir að þeir væru til staðar.

Það var enginn sem hjálpaði mér og ég ber enn sárin og óöryggið með mér. Mun alltaf gera það.

Það sem er verst er hræðslan við að ég nái ekki að vernda börnin mín fyrir að þetta komi fyrir þau. Einelti er alls staðar. Hvar það byrjar og hvar það endar er flókið að skilgreina, tímalega og hugmyndafræðilega.

Komum fram við aðra eins og við viljum láta koma fram við okkur.
Aðgát skal höfð í nærveru sálu.

1 comment:

Anonymous said...

Þetta var góður pistill hjá þér Linda.
Ég hugsa einmitt oft um þetta, mun maður geta bjargað börnunum sínum frá þessari meðferð? Flestir hafa lent í svona einelti (var það ekki nefnt stríðni á þeim tíma, allt of saklaust orð fyrir grafalvarlegan hlut).

En e-n veginn spái ég því að sá eða sú sem hrinti þér í drullupollinn sé ekkert allt of vel staddur í lífinu í dag...