Tuesday, March 21, 2006

Vegur hálskirtlanna

16. mars kl. 7 : Ég fer fram úr og klæði mig eftir að vekjaraklukkan hringdi. Maðurinn minn og dóttir liggja enn og láta eins og ekkert hafi ískorist. Um leið og ég fer að tala við þau tekur sú stutta við sér en pabbinn þráast við.
Linda: "Þú ert ekki svona óþekk að vakna eins og pabbi?"
Ella Lilja(horfir mjög alvarleg á mömmu sína og hristir hausinn): "Ég vil aldrei sofa!"

En að lokum náðum við pabba fram úr og þau feðginin keyrðu mig í hálskirtlatökuna. Þar átti ég fyrst að skipta yfir í spítalaklæðnað, taka 5 pillur og skella mér síðan upp á bekk þar sem svæfingarlæknirinn beið. Hann talar eitthvað við mig, setur vökva í æð og sprautar síðan einhverju í mig sem lætur mig finnast eins og vinstri hendin kólni skyndilega um nokkrar gráður. Um leið og hann gerir þetta segir hann að ég sofni ekki alveg strax..samt man ég ekki meir fyrr en ég vakna með súrefnisgrímu e-ð hálfdösuð frammi. Þar með voru kirtlarnir farnir.

Við tóku nokkrir klukkutímar, hálfsofandi með frostpinna í hönd og gubbandi ungling sér við hlið. Sumir þola víst svæfinguna verr en aðrir. Þess má þó geta að viðkomandi gubbari gekk uppréttur út á sama tíma og ég sem þurfti að setjast niður fimm sinnum á leiðinni út í bíl.

Síðan þá hefur lítið breyst. Ég er verst á nóttunni og morgnana. Þá er ég með mikla og sára verki út í eyru sem verkjalyfin ná ekki að bæla. Og þrátt fyrir að mikill vilji sé til staðar get ég lítið borðað. Reyndi að borða pastarétt sem Sindri eldaði í gærkvöldi og tárin runnu. En ég hlakka rosalega til að geta borðað allt. Frostpinnar og jógúrt eru ekki mest spennandi fæða í heimi til lengdar.

Bestu kveðjur úr einverunni

5 comments:

Anonymous said...

Ææ, greyið Linda :(
Láttu þér batna og sjáumst hressar ;)

Anonymous said...

Úff, sendi þér baráttukveðjur, þú ert hetja! :-)
Ef þig langar einhvern tíman í spjall yfir íspinna þá endilega láttu vita!

Beta said...

Úfff... þetta hljómar ekki spennandi! Vonandi lagastu sem fyrst og getur farið að borða eitthvað annað en jógúrt & ís :)

Anonymous said...

Ég ætla alltaf að koma bókinni Þriðja táknið til þín, hún léttir þér örugglega stundir á bataveginum. Ég droppa við hjá þér fljótlega :)

LindaKrissó said...

Takk Mæja:-)

Annars hlýtur þetta allt að fara að koma hjá mér;-)