Thursday, September 15, 2005

Leikskóli kisubarna

Pistillinn í dag er um leikskóla. Sonur minn stundar einn slíkan og er nú bara almenn ánægja með hann. Drengurinn fer sáttur í hann og leikur sér allan daginn. Það er þó mikil breyting á upplýsingaflæði til foreldra frá því að drengurinn færðist upp um deild. Á Undralandi mættu manni alltaf brosandi starfsmenn sem sögðu manni jafnvel sögur af því sem barnið hafði aðhafst um daginn. Hún Tóta var ekki bara vinkona Sindra Dags heldur spjallaði líka við mömmu og pabba.

Á Kattholti er sagan önnur. Aðlögun snúðsins gekk illa. Starfsmenn deildarinnar heilsa varla og láta sig hverfa þegar maður kemur að sækja drenginn. Það hafa engin skilaboð af neinu tagi ratað í hólf drengsins síðan hann kom þarna í sumar og þegar samskipti á að hafa við deildina veit maður ekki neitt hvern maður á að tala við. Það nennir jú eiginlega enginn að tala við mann!

Á þriðjudaginn hófst til dæmis danskennsla sem foreldrar þurfa að borga fyrir en ég vissi bara ekkert af og gat þess vegna ekki verið búin að borga??? Ég bara skil þetta ekki.

Upp á síðkastið var ég síðan að lesa umræðu á barnalandi þar sem starfsfólk á leikskóla er mjög ósátt við að vera kallað fóstrur. Sonur minn kallar starfsfólk leikskólans síns alltaf fóstur og við höfum því bara gert það líka. Ég er hins vegar meira en til í að kalla þetta fólk kennara en þá þarf það líka að segja börnunum/foreldrum að gera það! Ekki bara þola mann ekki og bitcha um það á barnalandi að fólk líti niður á leikskólakennara með því að kalla það fóstrur. Og hana nú!

Ráðvillt kisumamma í leikskólaheimi

1 comment:

Beta said...

Hmm... ég hef nú heyrt leikskólakennara kalla sig fóstru :)